Fréttir af aðalfundi

Aðalfundur Endósamtakanna fór fram þriðjudaginn 25. apríl kl.20 í húsakynnum samtakanna að Sigtúni 42. Fundinum var streymt og fengu félagar í samtökunum hlekk í tölvupósti fyrir fundinn. Kosningar fóru fram rafrænt með aðstoð menti.com og tókst það vel. 

Eftir hefðbundna dagskrárliði eins og skýrslu stjórnar og ársreikning var kosið í stjórn en kosið var um embætti varaformanns og gjaldkera. Sigríður Halla Magnúsdóttir var kosin áframhaldandi varaformaður og Karen Ösp Friðriksdóttir var kjörin gjaldkeri en engin mótframboð bárust í þessi tvö embætti. Þær Ingibjörg Elísabet Garðarsdóttir, Sigrún Erla og María Dís Ólafsdóttir munu sitja áfram í varastjórn en auk þeirra gáfu þrjár nýjar kost á sér: Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir, Steinunn Birta Ólafsdóttir og Natalia Olender Róbertsdóttir. Endósamtökin óska þeim til hamingju með kjörið og fara full tilhlökkunar inn í komandi starfsár. 

Að fundi loknum hélt Kata Magdalena, sjúkraþjálfari í endóteyminu, áhugaverðan fyrirlestur um það hvernig sjúkraþjálfun getur verið gagnleg fyrir og eftir aðgerðir og hvernig hægt er að vinna með og losa upp ör og örvefi sem myndast eftir aðgerðir.  

Fyrir hönd Endósamtakanna,
Lilja Guðmundsdóttir, formaður

Aðrar fréttir

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2023

Nú er búið að loka fyrir áheitasöfnnun á hlauparana okkar í Reykjavíkurmaraþoninu. Við erum orðlausar yfir öllu fólkinu sem hljóp fyrir okkur en samtals fóru 33 hlauparar af stað fyrir hönd Endósamtakanna. Þetta er stærsta árið okkar til þessa og við springum út stolti! Eins slógum við met í söfnuninni sem er okkur algjörlega ómetanlegt.

Lesa meira »