Er ég með endómetríósu?

Þjáist þú af slæmum tíðaverkjum, miklum blæðingum, meltingarvandamálum eða sársauka við kynlíf eða glímir þú við ófrjósemi?
Ef svo er þá gætir þú verið með endómetríósu.

Hver eru einkennin?

Þú getur verið með endómetríósu án þess að hafa nokkur einkenni sjúkdómsins en langflestir glíma við eitt eða fleira af eftirfarandi:

 • Mjög sársaukafullar blæðingar
  • Þú mætir ekki í vinnu eða skóla og/eða
  • Þú verður að taka inn sterk verkjalyf
 • Miklar og langar blæðingar
  • Venjuleg dömubindi dugar ekki til
  • Blæðingar standa yfir 5-7 daga
 • Verkir í kviðarholi milli blæðinga
 • Óreglulegar blæðingar
 • Sársauki við eða eftir samfarir
 • Sársauki við þvaglát eða hægðir
 • Erfiðleikar við að verða barnshafandi
 • Síþreyta

Hvað á ég að gera ef ég held að ég sé með endó?

Leitaðu strax til heimilislæknis eða kvensjúkdómalæknis og lýstu fyrir honum hvað er að hrjá þig. Við höfum útbúið lista sem gæti hjálpað þér við að fá rétta meðhöndlum. Prentaðu listann, fylltu hann út og taktu hann með þegar þú hittir lækninn. Óskaðu svo eftir því hjá þínum lækni að fá tilvísun til endómetríósu teymisins á kvennadeild Landspítalans. Einnig er hægt að leita beint til Jóns Ívars Einarssonar á Klíníkinni eða til Hildar Guðjónsdóttur á Heilbrigðisstofnun Vesturlands. 

Það hefur ekki fundist nein lækning við endómetríósu en það eru til margar leiðir til að meðhöndla sjúkdóminn. Mikilvægt er að hann greinist sem fyrst svo hægt sé að takast betur á við afleiðingar hans. Þú skalt því ekki bíða með læknisheimsókn ef þig grunar að þú sért með endó.

Hvað svo?

Leiki grunur á því að þú sért með endómetríósu er algengt að reynd sé hormónameðferð, sjúkraþjálfun, ristilspeglun og aðrir hlutir rannsakaðir áður en kviðarholsspeglun er framkvæmd. Mikilvægt er að fara í aðgerð hjá skurðlækni sem hefur mikla þekkingu og reynslu af aðgerðum vegna endómetríósu. Til að mynda hjá endóteymi Landspítalans, Jóni Ívari Einarssyni á Klíníkinni eða hjá Hildi Guðjónsdóttur,  Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Kviðarholsspeglun er eina leiðin til að staðfesta sjúkdóminn en það er gert með sýnatöku úr vef í kviðarholi. Í sumum tilfellum greinist ekki endómetríósa í vefjasýni þó að skýr merki séu um sjúkdóminn. 

 

Við getum hjálpað þér

Endósamtökin leitast við að aðstoða þá sem glíma við sjúkdóminn með því að veita stuðning og fræðslu. Þá stuðla samtökin að vitundarvakningu á meðal almennings og heilbrigðisstarfsfólks en sjúkdómurinn var áður feimnismál. Þeir sem ganga í samtökin fá aðgang að lokuðum hópi á facebook þar sem einstaklingar með endó leita eftir stuðningi, skiptast á upplýsingum og deila reynslu sinni.  Auk þess standa samtökin fyrir fjölmörgum viðburðum og fræðslu fyrir félaga í samtökunum. Fræðslu og reynslusögur má finna á samfélagsmiðlunum Instagram undir EndoIceland og á Tiktok undir: Endósamtökin

Endómetríósu teymið á kvennadeild Landspítalans

Til að komast að hjá endómetríósu teyminu þarf tilvísun frá heimilislækni eða kvensjúkdómalækni.  Innan teymisins starfa:

 • Kvensjúkdómalæknar
 • Hjúkrunarfræðingar
 • Sjúkraþjálfarar
 • Félagsráðgjafi
 • Sálfræðingur

Teymið starfar náið með verkjateymi Landspítalans auk meltingarsérfræðinga. 

Mikilvægt er að þjónustan sé þvegfagleg við fólk með endómetríósu því sjúkdómurinn getur haft áhrif á öll líffærakerfi líkamans.