„Maginn leit út eins og gamalt bíldekk“

Kona fædd 1979 segir sögu sína. Henni var sagt að drífa sig í að verða ófrísk.

Ég greindist með legslímuflakk þegar ég var 29 ára gömul. Tveimur árum áður hafði ég hætt á pillunni og í kjölfarið fór ég að fá hræðilega túrverki. Verkirnir voru svo slæmir að það leið yfir mig í verstu köstunum. Ég vildi helst bara liggja á köldu baðherbergisgólfi enda ældi ég iðulega, svitnaði gríðarlega og var hreinlega græn í framan af kvölum. Allt þetta skrifaði ég sem eðlilega túrverki, svona væri bara kvöl konunnar. Það var ekki fyrr en ég heimsótti kvensjúkdómalæknir út af allt öðru að það kom í ljós að ég þjáðist af legslímuflakki. Ég fór í sónar hjá honum og þar sást greinilega að það var eitthvað að og hann sendi mig í magaspeglun. Þremur dögum seinna fór ég í stóran uppskurð þar sem skorið var eins og að um keisaraskurð væri að ræða og blóðpokar hreinsaðar í burtu. Ég var send upp á Akranes í þessa aðgerð, líklega vegna þess að það var ekkert laust í Reykjavík og/eða aðstaðan á kvennadeildinni þar er mjög góð.

Þegar ég vaknaði af svæfingunni og leit niður á magann á mér leit hann út eins og gamalt bíldekk, heftaður saman með 15 heftum. Ég gat varla gengið í viku eftir aðgerðina og var frá vinnu í mánuð. Maginn var uppþaninn og ég var mjög aum. Ekki síður var ömurlegt að heyra frá lækninum að ég yrði að drífa mig í að verða ófrísk ef ég á annað borð ætlaði mér að eignast einhver börn, líkami minn væri kominn á síðasta söludag. Mér baust að fara á hormónalyf í kjölfarið en hafði engan áhuga á því enda nýbúin að fá þann dóm að ég yrði að drífa mig í því að verða ófrísk, því sagt var að sjúkdómurinn hefði áhrif á frjósemina og ófrískur verður maður ekki á lyfjunim. Í staðinn fékk ég verkjalyf og sú tegund sem hefur reynst mér hvað best er Felden sem bjargar mér alveg yfir erfiðustu daga mánaðirins. Eftir aðgerðina var ég lengi mjög aum og það var t.d. mjög sársaukafullt að fá fullnægingu í marga mánuði á eftir aðgerð. Ég varð hinsvegar betri af túrverkjunum, a.m.k fyrstu tvö árin. Ég hef tvisvar þurft að leita upp á bráðamóttöku vegna verkja eftir aðgerðina og hef þá verið sprautuð niður sem hefur verið ótrúlega gott því ég held engum verkjalyfjum niðri þegar ég er sem verst.

Ekki var síður ömurlegt að heyra frá lækninum að ég yrði að drífa mig í að verða ófrísk ef ég á annað borð ætlaði mér að eignast einhver börn, líkaimnn minn væri kominn á síðasta söludag.

Mér til mikillar gleði hef ég líka orðið ófrísk, og þó svo ég hafi misst fóstrið var ákveðinn léttir að vita að kerfið virðist virka vel þrátt fyrir allt. Mitt ráð til þeirra kvenna sem þjást af miklum tíðarverkjum: endilega látið kíkja á ykkur. Farið til læknis sem er með sónartæki, þetta sést oft í sónar en heimtið annars kviðarholsspeglun. Ég mæli með kvensjúkdómalækninum, Vilhjálmi Andréssyni, sem er í Mosfellsbæ.

Aðrar reynslusögur