Greind eftir tvo keiluskurði

Frásögn konu fædd 1999. Hún og maðurinn hennar eiga barn er eru að reyna að eignast annað.

Ég greindist með legslímuflakk árið 1999 en það var mínum yndislega kvensjúkdómalækni, Arnari Haukssyni, að þakka. Ég hafði tvívegis farið í keiluskurð og taldi jafnvel að mínir slæmu túrverkir væru afleiðing af því en Arnari leist ekki á blikuna og sendi mig á Lsp. í kviðarholsspeglun.
Ég var 27 ára, einhleyp, starfaði út um allann heim á þessum tíma og því ekki farin að íhuga barneignir. Eftir aðgerðina á Lsp. var mér tjáð að ég væri með legslímuflakk, búið, bless. Ég fór heim og var engu nær um hvað þetta þýddi fyrir mig, hvað þá að hafa hugmynd um hvað þetta væri. Arnar hafði samband við mig í kjölfarið og tjáði mér að ég gæti átt í erfiðleikum með að verða þunguð i framtíðinni. Mér fundust verkirnir lagast í kjölfar aðgerðarinnar og 2 árum síðar varð ég þunguð af syni mínum sem fæddist í ágúst 2002.
Mér brá í brún þegar ég varð ólétt þar sem ég vissi af legslímuflakkinu og var það ekki fyrr en sonur minn varð 2 ára að ég rakst á grein á netinu þar sem sagt var að ákveðin prósenta kvenna yrðu óléttar innan tveggja ára eftir kviðarholsspeglun. Að vonum varð ég himinlifandi og taldi mig mjög lánsama að hafa orðið þunguð á „gamla mátann“ef svo má að orði komast. Enda orðin þrítug.

Árið 2005 greindist ég með vefjagigt. Það var ekki fyrr en á aðalfundi félagsins þann 22 maí sem ég heyrði þeim möguleika varpað fram að það gæti verið afleiðing vegna legslímuflakksins.

Síðastliðið 1 og 1/2 ár höfum við maðurinn minn verið að reyna að eignast annað barn en illa gengur. Ég var send á Lsp þar sem átti að blása út eggjaleiðarana en ekki var hægt að framkvæma þá aðgerð vegna mikilla samgróninga eftir keiluskurðina. Ákveðið var að senda mig á Sjúkrahús Suðurnesja (styttri biðtími en í bænum) í mína aðra kviðarholsspeglun. Yfirlæknir sjúkrahússins framkvæmdi aðgerðina í nóvember 2006, daginn fyrir 35 ára afmælið mitt og fannst mér afar gott að tala við hann í kjölfarið. Hann kom hreint og beint fram, sagðist hafa „klippt, skorið og brennt“ í 2klst. en þetta var miklu meiri aðgerð en búist var við þar sem miklir samgróningar voru komnir og báðir eggjaleiðarar lokaðir. Hann vildi setja mig á hormónalyf í 8 mánuði og fresta tilraun til barneigna en vildi samt að Arnar tæki endanlega ákvörðun í samráði við mig. Við Arnar ákváðum að kýla á að reyna við þungun og var ég sett á 3ja mánaða skammt af Pergotime en ekkert gerðist. Ástæða þess að við vildum bíða með hormónagjöf er bæði vegna aldurs míns og eins þess að eggjaleiðarar voru báðir opnir eftir aðgerðina og því meiri líkur á frjóvgun.

Ekkert hefur enn gerst og erum við á leið í glasafrjóvgun á Art Medica, hjá Guðmundi Arasyni, eftir sumarlokun.

Ég er í þeirri góðu aðstöðu að hafa kost á að vinna hlutastarf og nýti mér það. Ég hef haft sögu um kvíða, depurð, og síþreytu og þarf að leggja mig daglega til að komast í gegnum daginn. Sá þáttur hefur reynst mér erfiðastur þar sem ég var alltaf mikill „orkubolti“. Eins og móðir mín sagði alltaf við mig: „það er eins og hvirfilbylur fari um húsið þegar þú kemur“.

Nú þarf ég að einbeita mér að því að hlúa að sjálfri mér og sætta mig við að ég get kannski ekki alveg allt.

Aðrar reynslusögur