Er ég með endó?

Þjáist þú af slæmum tíðaverkjum, miklum blæðingum, meltingarvandamálum eða sársauka við kynlíf eða glímir þú við ófrjósemi?
Ef svo er þá gætir þú verið með endómetríósu.

Hver eru einkennin?

Þú getur verið með endómetríósu án þess að hafa nokkur einkenni sjúkdómsins en langflestir glíma við eitt eða fleira af eftirfarandi:

 • Mjög sársaukafullar blæðingar
  • Þú mætir ekki í vinnu eða skóla og/eða
  • Þú verður að taka inn sterk verkjalyf
 • Verkir í kviðarholi milli blæðinga
 • Óreglulegar blæðingar
 • Sársauki við eða eftir samfarir
 • Sársauki við þvaglát eða hægðir
 • Erfiðleikar við að verða barnshafandi
 • Síþreyta

Hvað á ég að gera ef ég held að ég sé með endó?

Leitaðu strax til kvensjúkdóma-læknis og lýstu fyrir honum hvað er að hrjá þig. Við höfum útbúið lista sem gæti hjálpað þér við að fá rétta meðhöndlum. Prentaðu listann, fylltu hann út og taktu hann með þegar þú hittir lækninn. Það hefur ekki fundist nein lækning við endómetríósu en það eru til margar leiðir til að meðhöndla sjúkdóminn. Mikilvægt er að hann greinist sem fyrst svo hægt sé að takast betur á við afleiðingar hans. Þú skalt því ekki bíða með læknisheimsókn ef þig grunar að þú sért með endó.

Hvað svo?

Leiki grunur á því að þú sért með endómetríósu er líklegt að fram fari kviðarholsspeglun til að staðfesta sjúkdómsgreininguna. Kviðarholsspeglun er áhættulítil aðgerð og jafnframt eina örugga leiðin til að greina endómetríósu. Venjulega er hægt að greina sjúkdóminn og fjarlægja afbrigðilegan vef úr kviðarholinu í sömu aðgerðinni. Ef engin endómetríósa er sjáanleg eru sýni send til rannsóknar til staðfestingar. Stundum er endómetriósan ósýnileg og því sýnatakan nauðsynleg. 

 

Við getum hjálpað þér

Samtök um endómetríósu leitast við að aðstoða þá sem glíma við sjúkdóminn með því að veita stuðning og fræðslu. Á síðunni okkar má finna margvíslegar upplýsingar um endómetríósu ásamt því sem reynslusögur fólks með endó geta veitt innsýn í hvernig lífið með sjúkdómnum er. Þeir sem ganga í samtökin fá síðan aðgang að lokuðum hóp á facebook þar sem einstaklingar með endó leita eftir stuðningi, skiptast á upplýsingum og deila reynslu sinni.