Hugmyndasamkeppni Endósamtakanna – Þetta er allt í hausnum á þér!

Ertu skapandi og hugmyndarík?  Þá er þetta tækifærið fyrir þig!

 Endósamtökin efna til hönnunarsamkeppni með yfirskriftinni Þetta er allt í hausnum á þér! Við leitum að einstökum hugmyndum sem endurspegla markmið okkar og baráttu. Hönnunin þín gæti orðið hluti af varningi samtakanna og stuðlað að aukinni vitund um endómetríósu.

Um þemað – Þetta er allt í hausnum á þér!
Stundum fá einstaklingar með endómetríósu þau skilaboð, beint eða óbeint, að verkirnir þeirra séu bara í hausnum á þeim. Raunveruleikinn er sá að endómetríósa er alvarlegur sjúkdómur sem getur valdið miklum sársauka.
Nú viljum við finna styrkinn í þessum orðum og eigna okkur þessa línu með húmor og sköpunargleði að vopni. Hönnunin verður að tengjast þemanu með einhverjum hætti, en útfærsla er frjáls.

Skilafrestur hugmynda er til miðnættis 10. september.
Athugið að hönnunin verður að vera þín eigin og ekki brot á höfundarétti.

Dómnefnd velur bestu hugmyndina og verðlaun að upphæð 100.000kr.  eru í boði fyrir sigurvegarann, ásamt því að sigurhönnunin mun prýða varning Endósamtakanna.

Hverju leitum við að?
Skapandi og áhrifarík hönnun sem vekur athygli.
– Hönnun sem tengir inn á yfirskrift keppninnar: Þetta er allt í hausnum á þér!
– Hönnun sem er auðlæsileg og hentug til prentunar á varning.

Hvernig tekur þú þátt?
Þú sendir inn hönnunina þína ásamt stuttum texta sem útskýrir hugmyndina á bak við hana og nafninu þínu sem fylgir hönnuninni á netfangið endo@endo.is með efnislínunni Þetta er allt í hausnum á þér.

Verðlaun
– Verk sigurvegarans verður notað á varning Endósamtakanna og í kynningarefni fyrir samtökin.
– 100.000 króna peningaverðlaun.

Ekki missa af þessu einstaka tækifæri til að láta ljós þitt skína og styðja við mikilvægt málefni!

___________________________________________

Ekki svo smáa smáa letrið
Breyting á hönnun Það gæti verið að aðlaga þurfi hönnunina til þess að hún passi á ákveðinn varning. Ef til þess kemur verða engar breytingar gerðar nema í samráð við hönnuði.
Eignaréttur efnis Með því að taka þátt í samkeppninni veita keppendur samtökunum leyfi til að nota þá hönnun sem valin verður í vitundarvakningarherferð og fjáröflun fyrir starf samtakanna, sem getur verið í formi varnings, efni á vefsíðu og efni á samfélagsmiðla í ákveðinn tíma. Eignaréttur hönnuninarinnar er þó ávallt hjá hönnuði.
Kredit Í kynningarefni fyrir varning, þegar hönnun er notuð á vefsíðu eða þegar fjallað er um þá hönnun sem sigrar með einhverjum hætti verður þess ávallt gætt að nafngreina höfund.
Ólögmætt efni Efni sem brýtur gegn höfundarrétti eða felur í sér hatursfull eða fordómafull skilaboð verða dæmd úr keppni. Dómnefnd tekur ákvörðun í slíkum tilfellum.
Endósamtökin áskilja sér rétt til að velja enga innsenda hugmynd ef dómnefnd metur það svo að engin þeirra passi nægilega vel við þema keppninnar og markmið.

 

 

 

 

 

Aðrar fréttir