Ég greindist með endometriosu í mars árið 2006, þá 26 ára gömul. Fram að því hafði ég alltaf fengið mikla túrverki og hafði búið mér til rútínu til að komast í gegnum þá daga sem blæðingar stóðu yfir. Samt sem áður var það fastur liður að missa eitthvað úr vinnu og skóla á þessum tíma þó svo maður reyndi að láta það vera sem minnst. Seinustu þrjú árin áður en ég greindist var ég einnig með mikla verki í hvert sinn sem ég var búin að pissa. Þetta átti sér alltaf stað fyrstu viku tíðahringsins en lét lítið sem ekkert á sér kræla inn á milli. Fyrst þegar ég fann þá verki fór ég með þvagprufu á heilsugæslustöðina en þvagið reyndist jafn tært og hjá ungabarni og ekki kom frumkvæði frá starfsmönnum stöðvarinnar um að skoða fleiri þætti. Ekki datt mér í hug hvað í ósköpunum gæti verið að svo ég hummaði þetta fram af mér á þeim forsendum að ég væri bara svona gölluð. Verkirnir versnuðu hins vegar með tímanum og það kom að því að ég nefndi þá við kvensjúkdómalækninn minn.
Fletti upp legslímuflakki á netinu
Í kjölfarið fór ég í kviðarholsspeglun þar sem sjúkdómurinn greindist. Fyrsta upplifunin var léttir, að fá loksins staðfestingu á því að ég væri ekki skrýtin. Ég leiddi því hjá mér þau tíðindi sem læknirinn flutti mér þegar ég vaknaði eftir speglunina að ekkert hefði verið hægt að gera. Endometriosan væri það mikil að ekki dytti nokkrum heilvita manni að reyna að brenna hana í burtu, stærri aðgerðar væri þörf. Ég fletti legslímuflakki upp á netinu. Lenti reyndar í dálitlum vandræðum með að finna eitthvað fyrst því nafnið vafðist fyrir mér. Það eina sem sat eftir eftir þá leit var að stór hluti kvenna með sjúkdóminn átti í vandræðum með að eignast börn. Ég var þó lengi að melta þær upplýsingar og er að mörgu leyti að því enn. Þessar fréttir komu að mörgu leyti verr við fólkið í kringum mig heldur en mig sjálfa. Að öðru leyti gerði ég mér enga grein fyrir því sem í vændum var.
Á næstu skrefum gerðust hlutirnir frekar hratt og upplýsingarnar komu í skömmtum. Þegar saumarnir eftir speglunina voru teknir fékk ég fyrsta sjokkið þegar læknirinn skýrði fyrir mér í grófum dráttum umfang aðgerðarinnar sem framundan var. Spítalavist í viku til tíu daga og í framhaldi af því að taka því rólega í fjórar til sex vikur. Ég sem hélt að ég myndi rúlla þessu upp á nokkrum dögum. Tveir sérfræðingar áttu að framkvæma aðgerðina, Eiríkur Jónsson þvagfæraskurðlæknir og Auður Smith kvensjúkdómalæknir og næstu upplýsingar fékk ég frá Eiríki. Hann vildi framkvæma aðgerðina sem fyrst sem ég var ekki alveg sátt við þar sem ég var á fullu við að skrifa lokaritgerð og klára háskólanám. Lendingin var að ég lagðist inn á spítalann daginn eftir að ég skilaði ritgerðinni, innan við tveimur mánuðum eftir að ég greindist.
Á meðan þetta var allt að skýrast lagði ég mig fram við að klára skólann og reyndi að meðtaka allt það sem var að gerast. Ég fór í alls kyns rannsóknir til að undirbúa aðgerðina og mamma fór með mér í þær flestar. Sem betur fer segi ég núna því hún spurði nauðsynlegra spurninga á meðan ég væflaðist meira um og gerði það sem mér var sagt. Ég hitti Auði um viku fyrir aðgerðina og þar fékk ég fyrstu almennilegu upplýsingarnar um hvað amaði að mér. Ég fór einnig og hitti Kolbrúnu grasalækni og fékk mörg góð ráð hjá henni og ég efast ekki um að sá undirbúningur sem ég fékk hjá henni fyrir aðgerðina hafi skipt miklu í því hvað allt gekk vel.
Mesta sjokkið kom þegar hringt var af deildinni sem ég átti að leggjast inn á til að fara yfir ferlið sem ég færi í gegnum þar. Ég varð bara skíthrædd eftir það símtal svo ég segi nú bara hreint frá. Það hjálpaði eflaust lítið til að ég hef alltaf verið með mikla nálafóbíu og liðið afar illa inn á spítölum en tilhugsunin um mænurótardeyfingu í marga daga og allar hinar nálarnar sem ég átti að vera með í æð var ekki góð. Á þeim tímapunkti var ég hreinlega tilbúin til að hætta við allt saman. Ég reyndi að leita mér upplýsinga eins og ég gat. Ég fletti upp á netinu upplýsingum um Zoladexið, lyfið sem átti að setja upp í aðgerðinni hjá mér og reyndi að finna upplýsingar um mænurótardeyfingar. Þær upplýsingar sem ég fann róuðu mig samt lítið. Mamma fór með mér í innskriftina á spítalanum daginn fyrir aðgerðina en þar talaði ég m.a. við svæfingalækni og sjúkraþjálfara. Ég fékk mjög góðar upplýsingar þar og fór rólegri heim og tilbúnari til að mæta á spítalann um kvöldið.
Vel heppnuð aðgerð
Aðgerðin gekk vel í alla staði og ég fór heim af spítalanum eftir viku. Skafið var af báðum eggjastokkum, hreinsað út úr kviðarholinu og fleygur skorin úr þvagblöðrunni. Ég var því með þvaglegg í tvær vikur. Ég fann lítið fyrir öllum aukaverkununum af Zoladexinu, fékk aðallega hitaköst, sem var ágætt því sumarið var víst ansi kalt og það var oft stutt í tárin. Annars leið mér vel og ég naut þess í botn að þurfa ekki að fara á blæðingar. Vegna þess hve allt gekk vel þurfti ég ekki annan skammt af Zoladexinu og næsta skref var að taka pilluna í einni beit til að halda blæðingum niðri. Ég komst í gegnum fjögur spjöld áður en líkamanum fannst vera kominn tími á blæðingar. Þeim fylgdu túrverkir og höfuðverkir. Höfuðverkirnir þó verstir og endaði ég niðrá slysó þar sem ég var sprautuð niður með verkjalyfjum. Þá var ég sett á hormónasprautuna Depoprovera sem ég er ennþá á núna hálfu ári síðar og hún virðist henta mér vel.
Þroskandi reynsla
Þegar ég horfi til baka hefur þetta verið erfið reynsla sem hefur þroskað mig mikið. Sérstaklega þar sem ég gekk í gegnum sambandsslit skömmu áður en ég lagðist inn á spítalann. Svona veikindapakki er víst ekki fyrir alla að takast á við. En þegar einar dyr lokast þá opnast alltaf aðrar og lífið mitt hefur tekið miklum stakkaskiptum síðastliðið ár. Ég fattaði fyrst eftir aðgerðina hvað það að fá blæðingar einu sinni í mánuði hafði háð mér mikið. Að mörgu leyti finnst mér ég vera að uppgötva lífið upp á nýtt. Auðvitað á ég langt í land og framtíðin er algjörlega óplægður akur. En hún er líka björt og spennandi og ég get ekki beðið eftir að takast á við hana.