Lög Endó-samtakanna

Samþykkt á aðalfundi samtakanna, þriðjudaginn 30. apríl 2024.

1. GR. HEITI

Heiti samtakanna er Samtök um endómetríósu. Á ensku heita samtökin The Endometriosis Association of Iceland.

Félagið starfar samkvæmt lögum nr. 110/2021 um félög til almannaheilla.

2. GR. MARKMIÐ

Meginmarkmið Samtaka um endómetríósu er að veita fólki með endómetríósu og aðstandendum þess stuðning og fræðslu.

Önnur markmið:

  • Fræða félagsmenn, almenning, heilbrigðisstarfsfólk og heilbrigðisyfirvöld um endómetríósu.
  • Efla tengsl milli fólks með endómetríósu og heilbrigðisstarfsfólks/yfirvalda.
  • Stuðla að bættri þjónustu við fólk með endómetríósu og almennt vinna að bættum hag þess.

3. GR. STARFSEMI

Starfsemi Samtaka um endómetríósu er þríþætt:

  1. Ýmis þjónusta og stuðningur við félagsmenn samtakanna um allt land.
  2. Fræðsla um endómetríósu.
  3. Vinna að langtímamarkmiðum samtakanna. Starfa með öðrum félagasamtökum hér á landi sem erlendis, að sameiginlegum markmiðum og starfa með heilbrigðisstarfsfólki og yfirvöldum að umbótum í þágu fólks með endómetríósu.

4. GR. AÐILDARFÉLAGAR

Samtök um endómetríósu eru öllum opin en eru fyrst og fremst ætluð fólki með endómetríósu og aðstandendum þess. Félagar geta verið:

  1. Ársfélagar, þeir, sem greiða árlegt félagsgjald.
  2. Heiðursfélagar, þeir, sem kjörnir eru á aðalfundi eftir tillögum stjórnarinnar.

5. GR. FÉLAGSGJÖLD OG REKSTUR

Samtök um endómetríósu eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Samtökin eru sjálfstæð samtök rekin með árgjaldi félagsmanna, styrkjum og frjálsum framlögum ásamt ágóða af söluvarningi.

Rekstur félagsins er í höndum stjórnar, prókúruhafar eru gjaldkeri og formaður. Ráðstöfun fjármagns skal nýtast í daglegan rekstur og tilfallandi verkefni. Daglegur rekstur er hér talinn leiga, laun og almennur skrifstofurekstur.

Stjórn ákvarðar breytingar á árgjaldi. Reikningar skulu sendir félagsmönnum eigi síðar en 31. janúar ár hvert. Sé árgjaldið ekki greitt innan tveggja mánaða frá gjalddaga, fellur félagsaðild sjálfkrafa niður.

Þeir sem gerast félagsmenn fyrir 1. september skulu greiða fullt árgjald. Þeir sem gerast félagsmenn eftir þann tíma greiða hálft árgjald það árið. Stjórnarmenn og heiðursfélagar greiða ekki félagsgjöld.

Ferðir, ráðstefnur og fræðslufundir skulu ávallt vera samþykkt af stjórn samtakanna og skal stjórnin hafa þar til gerðar verklagsreglur til hliðsjónar.

6. GR. REIKNINGAR

Reikningstímabil samtakanna er almanaksárið. Reikningar samtakanna skulu endurskoðast af tveimur skoðunarmönnum reikninga sem valdir eru af stjórn. Endurskoðaða reikninga samtakanna skal leggja fyrir aðalfund til samþykktar. Gjaldkeri annast fjárreiður félagsins í samráði við stjórn.

Launaútreikningar og gerð ársreikninga skal vera í höndu viðurkenndar bókhaldsþjónustu. Skoðunarmenn reikninga eru valdir árlega á aðalfundi og sitja í eitt ár í senn. Skoðunarmennirnir eru hlutlausir aðilar sem eru ekki tengdir samtökunum og hafa þekkingu á bókhaldi. 

7. GR. STJÓRN

Aðalstjórn samtakanna samanstendur af fimm félagsmönnum sem kosnir eru til tveggja ára í senn á aðalfundi samtakanna. Varastjórn skal samanstanda af að lágmarki tveimur einstaklingum og er hún kosin árlega. Firmaritun er í höndum prókúruhafa samtakanna.

Meðlimir í aðalstjórn, þar með talinn formaður,  skulu ekki sitja lengur en 6 ár í sama embætti, nema enginn annar gefi kost á sér í embættið. 

Framboð til aðalstjórnar þurfa að berast félaginu með tölvupósti viku fyrir aðalfund.

Einungis félagar skuldlausir við samtökin geta gefið kost á sér. Meirihluti stjórnarmanna skal vera fólk með endómetríósu. Varðandi framboð til stjórnar, sjá 8. gr. laga um aðalfund.

Stjórn setur starfsreglur um starfsemi á vegum félagsins og tilnefnir nefndir og ráð til að sinna tilteknum verkefnum, þegar það á við. Stjórn er sameiginlega ábyrg fyrir öllum fjármálum samtakanna.

8. GR. AÐALFUNDUR

Aðalfund samtakanna skal halda eigi síðar en 1. maí ár hvert. Dagsetning og staðsetning fundarins ákvarðast af stjórn.

Fundarboð aðalfundar skal sendast skriflega (í tölvupósti) til félagsmanna og birta á samfélagsmiðlum samtakanna eigi síðar en tveimur vikum fyrir áætlaða dagsetningu aðalfundar.

Aðalfundurinn er æðsta ákvörðunarvald samtakanna og getur, ef ekki er annars getið, með meirihluta atkvæða atkvæðabærra fundarmanna tekið allar þær ákvarðanir sem fyrir fundinum liggja. Félagsmenn samtakanna teljast atkvæðabærir fundarmenn. Á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Kosið skal skriflega sé þess óskað. Þá getur fundarmaður lagt fram tillögu sem borin er undir fundinn og þarf 2/3 atkvæða atkvæðabærra fundarmanna til að tillagan fáist samþykkt.

Varðandi breytingatillögur á lögum samtakanna sjá gr. 10 um breytingar á lögum.

Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:

Val á fundarstjóra, fundarritara og atkvæðateljara.
Skýrsla stjórnar. (Einnig skýrslur nefnda og starfshópa eftir því sem við á.)
Samþykkt reikninga samtakanna.
Lagabreytingar. (Eftir því sem við á.)
Stjórnarkjör.
Önnur mál.

9. GR. AUKAAÐALFUNDUR

Til aukaaðalfundar skal boða ef stjórn samtakanna þykir ástæða til eða þegar a.m.k. 10 félagsmenn óska þess. Beiðni um aukaaðalfund skal berast stjórn skriflega og fyrirhuguð dagskrá fundarins fylgja með. Fundurinn skal haldinn eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að krafa um það var fram sett. Til aukaaðalfundar skal boða með sama hætti og til aðalfundar. Aukaaðalfundur telst löglegur sé löglega til hans boðað. Á aukaaðalfundi skulu aðeins rædd og tekin til afgreiðslu þau mál sem fram koma í fundarboði.

10. GR. BREYTINGAR Á LÖGUM

Tillögur stjórnar til breytinga á lögum skulu kynntar félagsmönnum í aðalfundarboði eigi síðar en tveimur vikum fyrir boðaða dagsetningu aðalfundar. Tillögu félagsmanns til lagabreytinga má aðeins taka til afgreiðslu á aðalfundi, að hún hafi borist stjórn fyrir áramót og verið kynnt félagsmönnum í fundarboði.

Breyting á lögum öðlast gildi ef 2/3 atkvæðabærra fundarmanna veita breytingatillögunni atkvæði sitt.

11. GR. FÉLAGSSLIT

Ákvörðun um slit samtakanna skal tekin á stjórnarfundi með einföldum meirihluta og renna hugsanlegar eignir og lausafé til góðgerðamála sem tengjast málefnum fólks með endómetríósu og/eða ófrjósemi þess.

Þannig samþykkt á aðalfundi Samtaka um endómetríósu þann 30. apríl 2024.