Ranghugmyndir, mýtur og skilningsleysi
Glímt við þrautseigar mýtur
Þetta sjúkdómsástand hefur í gegn um tíðina verið skilgreint á misgóða vegu í tengslum við blæðingar, ófrjósemi og verki. Ein goðsögnin er sú að verkir séu eðlilegur hluti af lífi einstaklinga sem hafa blæðingar. Þegar því er haldið fram, sérstaklega þegar um er að ræða unga einstaklinga, þá fælir það viðkomandi frá því að leita sér hjálpar og við það seinkar greiningu sjúkdómsins oft um allmörg ár. Algengt er að það taki 6-10 ár þar til greiningin fæst, en til þess þarf skurðaðgerð sem nefnist kviðarholsspeglun. Að meðaltali má segja að verkir hjá einstaklingi með endometríósu vari í 13 daga í hverjum mánuði.
Vandamál í daglegu lífi
Sjúkdómurinn getur haft í för með sér veruleg vandamál í daglegu lífi. Niðurstaða evrópskrar könnunar, sem gerð var meðal kvenna með endómetríósu, leiddi í ljós eftirfarandi:
- 73% kvenna eru ófærar að taka þátt í félagslífi nokkra daga í hverjum mánuði.
- 80% kvennanna sögðu að endómetríósa truflaði svefn og gæði hans.
- 35% kvennanna svöruðu að endómetríósa hefði áhrif á samlíf þeirra og væri jafnvel orsök hjónaskilnaðar.
- 80% kvennanna höfðu verið fjarverandi frá vinnu á sl. 5 árum vegna endómetríósu og af þeim hafði:
- 14% verið sagt upp starfi, þær misst það með öðrum hætti eða neyddar til að fara á eftirlaun löngu fyrir eðlilegan tíma.
- 8% skipt um atvinnu vegna vandamála í tengslum við fjarvistir.
- 14% dregið úr vinnu og farið í hlutastarf.
- Alls höfðu 66% þeirra sem tóku þátt í könnunni fengið ranga sjúkdómsgreiningu í upphafi.
Við höfum útbúið blað með upplýsingum um endómetríósu, sem hægt er að afhenda atvinnurekendum svo þeir átti sig á eðli sjúkdómsins og áhrif hans á starfsgetu. Blaðið má nálgst hér.
Árný Ingvarsdóttir sálfræðingur hélt fyrirlestur um andleg áhrif krónískra sjúkdóma á fræðslufundi 10. október 2009.