Linda Hrönn Björgvinsdóttir hefur vakið mikla athygli á aðventunni fyrir frumlegt og skemmtilegt framtak. Hún tók upp á því að baka og selja óhefðbundnar kökur fyrir jólin – Legkökur Lindu!
Hugmynd Lindu kviknaði út frá hennar eigin baráttu við endómetríósu. Hún hafði í 10 ár barist við mikla verki í kviðarholi, í blöðrunni og í grindarbotninum ásamt taugaverkjum. Eftir langa þrautagöngu var Linda orðin vonlítil um að hún fengi nokkun tímann svör. Loks, eftir 10 ár, kom í ljós að hún var með endómetríósu og þurfti nauðsynlega að fara í aðgerð sem fyrst. Þá kom í ljós að kvótinn á niðurgreiddum aðgerðum utan Landspítalans var búinn og þurfti hún því að velja hvort hún myndi bíða lengur eftir aðgerð eða greiða hana úr eigin vasa. Hún gat ekki beðið og endaði á að greiða 1,4 milljónir fyrir aðgerðina.
Eftir aðgerðina kviknaði hugmyndin hjá Lindu að baka og selja Legkökur Lindu. Markmiðið var bæði að fjármagna aðgerðina og ekki síst vildi hún vekja athygli á þeim veruleika sem blasir við mörgum konum. Kökunum lýsir Linda svo:
„Kökurnar eru fullkomlega ófullkomnar en koma með 100% sársauka ábyrgð – ég kvaldist í 10 ár og gerði fyrsta upplagið 8 dögum eftir aðgerðina. Ég þurfti vissulega að leggja mig 10 sinnum á meðan bakstrinum stóð, en með aðstoð mannsins míns tókst mér að klára“
Linda fékk gífurlega mikil og jákvæð viðbrögð og náði hún að safna, með kökusölu og styrkjum, 584.000 krónum. Linda leitaði aðstoðar hjá Endósamtökunum eftir greininguna og var hún svo þakklát fyrir stuðninginn að hún ákvað að ánafna 25% af því sem hún safnaði til Endósamtakanna.
Linda afhenti styrkinn á dögunum og vilja Endósamtökin þakka henni kærlega fyrir stuðninginn og fyrir hugrekkið að deila sinni sögu.




