Endósamtökin bjóða til opins fundar á Austurlandi miðvikudaginn 5. nóvember nk. kl. 19:30 í fyrirlestrarsal Menntaskólans á Egilsstöðum í samstarfi við Soroptimistaklúbb Austurlands.
Á opna fundinum munu Anna Margrét, framkvæmdastýra samtakanna, og Unnur Regína, kynningarstýra samtakanna, kynna samtökin og það starf og stuðning sem samtökin bjóða upp á, ásamt því að fræða gesti um sjúkdóminn og vera til samtals um stöðu fólks með endó á Austurlandi.
Endósamtökin standa nú fyrir fræðslu í öllu grunn- og framhaldsskólum á Austurlandi, en það fræðsluátak er einmitt tilkomið vegna styrks frá Soroptimistaklúbbi Austurlands. Fræðslan hefur vakið upp margar spurningar hjá ungmennum á svæðinu og við hjá samtökunum höfum fengið auknar fyrirspurnir um sjúkdóminn, stuðning og ráð varðandi fyrstu skrefin í átt að greiningu.
Við hvetjum því sérstaklega foreldra og aðstandendur ungmenna til að mæta og kynna sér samtökin.
Fundurinn er opinn öllum og öll hjartanlega velkomin.


