Unnur Regína Gunnarsdóttir hefur verið ráðin kynningarstýra Endósamtakanna.
Unnur Regína hefur víðtæka reynslu meðal annars af kynningar- og markaðsmálum, framleiðslu á efni, birtingum og kynningarherferðum, ásamt því að hafa reynslu af fræðslu og stuðningsstörfum.
Unnur hefur verið í sjálfboðaliðastarfi fyrir samtökin í Endómars, sem er alþjóðlegur mánuður vitundarvakningar um endómetríósu, og hefur á því tímabilið framleitt fjölbreytt, skemmtilegt og fræðandi efni fyrir miðla samtakanna og virkjað til þess kraftinn í endósamfélaginu.
Unnur er sjálf meðlimur í Endósamtökunum og hefur dýrmæta innsýn inn í þær hindranir sem konur og fólk með endó mætir í leit að heilbrigðisþjónustu.
„Ég er mjög spennt fyrir komandi tímum. Ég mun leggja áherslu á í mínum störfum fyrir Endósamtökin að efni og fræðsla um endó sé aðgengileg öllum. Það er mikil þörf á samtökunum í samfélaginu og ég hlakka til að taka þátt í þessu mikilvæga starfi“, segir Unnur Regína.
Við hjá Endósamtökunum erum glaðar að fá Unni Regínu í hópinn og hlökkum til þess að efla ásýnd og slagkraft samtakanna enn frekar með hana í teyminu.