Sigurvegari hugmyndasamkeppni Endósamtakanna

Endósamtökin efndu til hugmyndasamkeppni á haustmánuðum 2024 undir yfirskriftinni „Þetta er allt í hausnum á þér“. Þátttakendur höfðu nokkuð frjálsar hendur í útfærslu en hugmyndirnar yrðu með einhverjum hætti að vísa í yfirskrift keppninnar.

Alls bárust átta hugmyndir í keppnina og átti dómnefnd í fullu fangi með að velja siguvegara.

Í dómnefnd sátu:
Anna Margrét Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Endósamtakanna,
Axel Friðriks, hönnuður og eigandi hönnunarstofunnar Studio Fin,
Eyrún Telma Jónsdóttir, ljósmyndari og stjórnarkona Endósamtakanna.

Dómnefnd valdi sigurvegara sem var svo tilkynntur í Endópartýi – opnunarviðburði Endómars, þriðjudaginn 4. mars sl. 

Sigurvegari hugmyndasamkeppni Endósamtakanna er Sunna Sigurveig Thorarensen.

Sunna Sigurveig er að læra myndskreytingu í University for Applied Science í Berlín og stefnir á að útskrifast þaðan næsta vor. 

„Hönnun Sunnu náði ótrúlega vel utan um yfirskrift keppninnar og er ögrandi, falleg og skemmtileg á sama tíma. Við erum þakklátar Sunnu fyrir að hafa tekið þátt og höfum svo sannarlega notið þess að vinna með henni að því að innvinkla hönnunina inn í nýja herferð samtakanna og ákall okkar til heilbrigðiskerfisins“ segir Anna Margrét, framkvæmdastjóri Endósamtakanna.

„Þetta er mikilvægt málefni og frábært að geta nýtt það sem ég er að læra til þess að vekja athygli á því“, segir Sunna um það af hverju hún tók þátt í hugmyndasamkeppninni.

Endósamtökin vilja þakka öllum þeim hæfileikaríku einstaklingum sem tóku þátt í samkeppninni. 

Varningur

Endósamtökin hafa nú sett í sölu varning með hönnun Sunnu, sem hluta af ákalli samtakanna í Endómars. Herferðin felur í sér að almenningur sýni stuðning í verki og skrifi undir ákall til heilbrigðiskerfisins um að bæta stuðning, þjónustu og viðmót til fólks með Endó.

Hægt er að kaupa veggspjöld, tattú og nælur í vefverslun samtakanna.

Allur sala á varningnum rennur beint í starf Endósamtakanna.

Aðrar fréttir