Í tilefni af alþjóðlegum vitundarvakningarmánuði um endómetríósu hefja Endósamtökin herferðina „Þetta er allt í hausnum á þér”. Herferðin varpar ljósi á hindranir og fordóma sem konur og einstaklingar sem fæðast með innri kvenlíffæri mæta innan heilbrigðiskerfisins. Endósamtökin skora á almenning að sýna stuðning í verki með því að skrifa undir ákall samtakanna, sem verður afhent heilbrigðisráðherra að loknum Endómars.
Í ákallinu krefjast samtökin þess að:
- Heilbrigðisstarfsfólk hlusti á konur og fólk með endó, trúi þeim og taki reynslu þeirra alvarlega.
- Stjórnvöld setji aukið fjármagn í úrræði fyrir fólk með endó.
- Greiningartími sjúkdómsins verði styttur og kerfið grípi inn fyrr.
Hægt er að skrifa undir á síðunni www.sofnun.endo.is – Endósamtökin hvetja alla landsmenn til að láta sig þetta málefni varða og skrifa undir.
Endómetríósa – vanmetinn sjúkdómur sem hefur alvarleg áhrif
Talið er að 10% kvenna og einstaklinga sem fæðast með innri kvenlíffæri séu með endómetríósu. Samt sem áður tekur að meðaltali 7-10 ár að greina sjúkdóminn, sem getur valdið varanlegum skaða á líffærum ef hann er ekki meðhöndlaður.
„Konur og fólk með endómetríósu heyra alltof oft að verkir þeirra séu ýktir eða jafnvel ímyndaðir. Þetta viðhorf veldur því að fólk fær ekki þá heilbrigðisþjónustu sem það á rétt á, sem getur haft gríðarleg áhrif á lífsgæði þeirra,” segir Anna Margrét Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Endósamtakanna. „Það er kominn tími til að heilbrigðiskerfið taki miklu betur utan um þennan hóp og mæti þeim af meiri virðingu og skilning.”
„Þú hlýtur að vera með mjög lágan sársaukaþröskuld.“
Endósamtökunum hafa á undanförnum árum borist mikill fjöldi af reynslusögum frá meðlimum samtakanna sem sýna að konur og fólk með endó upplifa oft að þeim sé ekki trúað þegar þau leita sér hjálpar og að gefið sé í skyn að þær séu dramatískar eða jafnvel móðursjúkar. Það er óviðunandi að fólk sé látið bíða árum saman eftir greiningu og meðferð á sjúkdómi sem getur haft víðtæk áhrif á heilsu, atvinnuþátttöku og daglegt líf.
Með herferðinni „Þetta er allt í hausnum á þér” vilja samtökin ekki aðeins vekja athygli á vandanum heldur einnig hvetja stjórnvöld til að grípa til aðgerða. Allir geta lagt sitt af mörkum með því að skrifa undir ákall samtakanna og styðja þannig konur og fólk með endómetríósu í baráttunni fyrir betri heilbrigðisþjónustu.