Anna Margrét, framkvæmdastjóri Endósamtakanna, er nýlega komin heim frá London þar sem fram fór fundur framkvæmdastjóra nokkurra endósamtaka í Evrópu. Fulltrúar frá Íslandi, Tékklandi, Ungverjalandi og Hollandi mættu í heimsókn til bresku samtakanna.
Markmð fundarins var að fræðast um starf annarra samtaka í Evrópu, deila þekkingu og reynslu, finna sameiginlegar áskoranir og kortleggja hvernig samtökin geta unnið saman að því að bæta þjónustu við konur og fólk með endó þvert á löndin.
Það var einstaklega innblásandi að sjá hvað öll samtökin voru að vinna metnaðarfullt starf í þágu sinna meðlima og að finna ástríðuna og metnaðinn í starfinu. Öll samtökin deildu spennandi verkefnum, en hér koma tvö dæmi um innblásandi verkefni sem þátttakendur fengu kynningu á.
Endóvænir vinnustaðir
Bresku endósamtökin, Endometriosis UK, eru með verkefni sem snýr að endóvænum vinnustöðum. Endóvænir vinnustaðir eru vinnustaðir sem heita því að fræðast um sjúkdóminn og þau áhrif sem sjúkdómurinn getur haft á fólk sem lifa með honum ásamt því að heita því að leggja sig fram við að byggja upp vinnuumhverfi sem tekur tillit til þarfa mismunandi starfsfólks
Endóvænir vinnustaðir er verkefni sem á að stuðla að auknu öryggi og aukinni vellíðan starfsfólks. Um 45 fyrirtæki í Bretlandi hafa nú þegar skráð sig í verkefnið og búist er við að fleiri bætist við á næstu mánuðum.
Nánar er hægt að fræðast um endóvæna vinnustaði hér: Endometriosis Friendly Employer Scheme | Endometriosis UK
„Fyrstu blæðingarnar” box
Endósamtökin í Ungverjalandi framleiða sérstök „fyrstu blæðingarnar” box sem eru ætluð ungum stúlkum og einstaklingum sem fara á blæðingar. Í boxunum er meðal annars að finna upplýsingabæklinga, túrbrækur, túrvörur og krem.
Þessi box eru aðgengileg öllum í gegnum vefverslun samtakanna, en að auki fara samtökin inn á vistheimili þar sem unglingsstúlkur og ungmenni sem þurfa að dvelja utan heimilis búa. Þar gefa þau stúlkunum og ungmennunum boxin og standa fyrir fræðslu fyrir þennan hóp.
Hægt er að skoða nánar hvað í boxinu hér: Fyrstu blæðingarnar box, Ungverjaland.
Anna Margrét deildi starfi Endósamtakanna á Íslandi og vakti það mikla athygli hversu virkt endósamfélagið er hér á landi, sér í lagi þegar kemur að þátttöku í fræðslu- og skemmtiviðburðum á vegum samtakanna. Mikill áhugi var fyrir að Ísland deildi sinni aðferðafræði við að skipuleggja áhugavert fræðslustarf í samstarfi við meðlimi sína. Einnig voru öll samtökin spennt fyrir fræðsluátakinu sem Endósamtökin eru að ýta úr vör fyrir ungmenni í elstu bekkjum grunnskóla og í framhaldsskólum, og vilja þau öll skoða möguleikann á að standa fyrir slíku átaki sjálf í sínu landi.
Allir þátttakendur voru innblásnir eftir þennan kraftmikla fund og það verður spennandi að vera í auknu evrópsku samstarfi við að berjast fyrir réttindum fyrir konur og fólk með endó.
