Þurfum við að tala um endó?

Endósamtökin og Silfra Productions frumsýna í dag, þriðjudaginn 16. apríl, nýja íslenska heimildarmynd um endómetríósu. Myndin er sýnd í Bíó Paradís og heitir: Tölum um ENDÓ. Þóra Karítas Árnadóttir leikstýrir myndinni.

En af hverju þurfum við að tala um endó?

Ástæðan er sú að það er gömul saga og ný að fólk með endómetríósu, í miklum meirihluta stelpur og konur, þurfi að ganga lengi og hart eftir því að fá greiningu við sjúkdómnum,eða í að meðaltali 7-10 ár. Á meðan beðið er eftir greiningu getur endómetríósa valdið óafturkræfum skaða á líffærum, skaða sem minnkar lífsgæði og eykur líkur á ófrjósemi. Markmið okkar í Endósamtökunum er að myndin opni augu almennings, heilbrigðisstarfsfólks og samfélagsins alls um það hversu víðtæk áhrif endómetríósa getur haft á líf fólks.

Allt frá því að ég hóf að vinna fyrir samtökin árið 2017 hefur það verið á stefnuskránni að fræða börn og unglinga um sjúkdóminn. Sú fræðsla þarf að vera faglega unnin og gerð til þess að fræða, ekki hræða. Eitt aðalmarkmið fræðslumyndar um endómetríósu er að stytta greiningartíma. Greiningartími hlýtur að styttast ef meðvitund um sjúkdóminn í samfélaginu eykst og ef börn og unglingar átta sig á því að sárir túrverkir eru ekki eðlilegir. Það er ekki eðlilegt að falla í yfirlið eða æla vegna verkja. Það er óeðlilegt að íbúfen eða paratabs dugi ekki til þess að verkjastilla ungmenni þannig að það geti mætt í skóla eða sinnt félagslífi.

Í haust stefna Endósamtökin að því að láta draum um fræðslu til barna og unglinga rætast. Með myndina í farteskinu eru okkur allir vegir færir og stefnum við á hringferð um landið. Þau fjölmörgu sem styrktu gerð myndarinnar og gerðu okkur kleift að láta drauminn um fræðslumynd rætast fá okkar bestu þakkir. Í þeirra hópi eru einstaklingar, listafólk sem gaf myndlist á listaverkauppboð, félagasamtök og ráðuneyti. Takk.

Við þurfum að tala um endó:

  • Fyrir barnið sem skilur ekkert hvað er að gerast í líkama sínum og upplifir sig eitt í heiminum.
  • Fyrir unglinginn sem missir úr skóla og félagslífi.
  • Fyrir foreldrana sem finna fyrir vanmætti.
  • Fyrir þá sem glíma við ófrjósemi vegna endómetríósu.
  • Fyrir foreldrið sem er of þreytt og verkjað til að sinna fjölskyldunni.
  • Fyrir þá sem missa starfsgetuna og þurfa viðeigandi aðstoð.
  • Fyrir hverja einustu manneskju með endó sem þráir skilning.

Höfundur er félagsráðgjafi og formaður Endósamtakanna.

Þessi grein birtist upprunalega á fréttamiðlinum Vísir 16. apríl 2024.

Aðrar fréttir

Fréttir af aðalfundi

Aðalfundur Endósamtakanna fór fram þriðjudaginn 25. apríl kl.20 í húsakynnum samtakanna að Sigtúni 42. Fundinum var streymt og fengu félagar í samtökunum hlekk í tölvupósti

Lesa meira »