Það er ómetanlegt að sjá baráttuviljann í okkar félagskonum og þegar að þær ákveða að keyra eitthvað af stað af krafti. 





Í tilefni af #endómars ætlum við að fara af stað með mikilvægan undirskriftarlista sem við hvetjum ykkur til að skrifa undir – og deila auðvitað með ykkar fólki. Það var hún Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir hrinti þessu af stað og að sjálfsögðu tökum við þátt.
Hér eru helstu áhersluatriði listans:
- Heilbrigðisráðherra veiti Sjúkratryggingum Íslands umboð til samninga við Jón Ívar Einarsson/Klíníkina Ármúla, svo sjúklingar geti í fyrsta sinn hér á landi fengið viðeigandi meðferð í stað þess að vera einungis boðið upp á hormónameðferðir eða langa biðlista fyrir aðgerðir sem ekki eru framkvæmdar af vottuðum sérfræðingum.
- Við taki sérstök deild sem hafi burði og bolmagn til að veita sjúklingum með endómetríósu viðeigandi meðferð, ásamt klínískum leiðbeiningum til að tryggja skilvirkari þjónustu, hvarvetna í heilbrigðiskerfinu.
- Sjúklingar yngri en 15 ára hafi stað að leita á þar sem kvennadeild Landspítalans tekur ekki við þeim, en einkenni geta gert vart við sig um leið og viðkomandi byrjar á blæðingum.
- Transfólk geti sótt viðeigandi þjónustu þar sem kynleiðréttingarferli læknar ekki endómetríósu.
- Að skurðaðgerðir séu aðeins framkvæmdar af þeim læknum sem hlotið hafi viðurkennda þjálfun og vottun til slíkra aðgerða.
Undirskriftalistinn verður afhentur heilbrigðisráðherra í lok mánaðar. Höfum hátt! #samanerumviðsterkari





Skrifa undir hér: https://listar.island.is/Stydjum/112