„Mér finnst auðvitað rosalega leiðinlegt að geta ekki hjálpað henni meira. Maður vildi geta tekið eitthvað af sársaukanum í burtu frá henni en þetta er bara svona og ég verð bara að gera mitt besta.“
Þetta segir Jónas Bragason, kærasti Júlíu Katrínar Behrend, sem glímt hefur við sjúkdóminn endómetríósu, eða legslímuflakk, frá því hún byrjaði á blæðingum í kringum 12 ára aldur. Júlía greindist þó ekki með sjúkdóminn fyrr en um fimm árum síðar og hefur síðan þá farið í fimm aðgerðir vegna hans. Í aðgerðunum hafa samgróningar verið leystir upp, innyfli losuð í sundur og örvefir og blöðrur teknar svo eitthvað sé nefnt.
Júlía fór seinast í aðgerð skömmu fyrir áramót. Hún og Jónas, sem hafa verið saman í sjö mánuði og búa saman á Sauðárkróki, voru þá búin að vera saman í nokkra mánuði og fylgdi hann henni í gegnum allt ferlið. Þau segja að það hafi skipt máli fyrir þau bæði enda sé mikilvægasti parturinn fyrir pör þar sem konan glímir við endómetríósu að standa saman.
Alltaf verið mjög kvalin á blæðingum
Endómetríósa (legslímuflakk) er krónískur og sársaukafullur sjúkdómur sem orsakast af því að legslímufrumur sem venjulega er aðeins að finna í innra lagi legsins finnast á öðrum stöðum í líkamanum og þá helst í kviðarholinu.
Talið er að fimm til tíu prósent kvenna geti verið með legslímuflakk og samkvæmt upplýsingum á vef Samtaka um endómetríósu má því gera ráð fyrir að um 2000 konur á Íslandi séu með sjúkdóminn. Fylgikvillar sjúkdómsins geta verið margvíslegir og getur hann til að mynda valdið ófrjósemi.