Í apríl 2018 tók DV viðtal við Eyrúnu Telmu Jónsdóttur. Hér er brot af því.
„Ég missti mikið úr skóla og var alltaf að drepast úr verkjum. Þetta hafði mikil áhrif á unglingsárin hjá mér, bæði andlega og líkamlega.“
Þetta segir Eyrún Telma Jónsdóttir en það tók hana 10 ár að fá greiningu á endómetríósu, eða legslímuflakki eins og það heitir á íslensku, þrátt fyrir að hún hafi byrjað að fá einkenni þegar hún var einungis þrettán ára gömul.
Endómetríósa (legslímuflakk) er krónískur sársaukafullur sjúkdómur, sem um 5–10% kvenna hafa. Orsök hans eru ekki fyllilega ljós. Þó er vitað að sjúkdómurinn gengur í erfðir og að það eru nokkrir samverkandi þættir sem valda honum. Endómetríósa orsakast af því að frumur svipaðar þeim sem finnast í innra lagi legsins finnast á öðrum stöðum í líkamanum, yfirleitt í kviðarholinu. Þessar frumur svara hormónum líkamans á svipaðan hátt og legslímufrumurnar í leginu. Þegar kona með endómetríósu fer á blæðingar, blæðir úr þessum frumum sama hvar þær eru í líkamanum. Því má segja að hún hafi margar litlar innvortis blæðingar og það orsakar miklar kvalir.
Eyrún minnist sérstaklega eins verkjakasts þegar hún neyddist til að leita upp á bráðamóttöku. Þekking lækna á sjúkdómnum var afar takmörkuð á þeim tíma og upplifði Eyrún að þeim fyndist hún gera heldur mikið úr veikindum sínum.
„Ég var að fara að sofa eitt kvöldið þegar ég fékk svona brjálæðislega mikla verki. Við kærasti minn héldum fyrst að þetta væri botnlanginn og hann þurfti að bera mig út í bíl vegna verkja. Þegar við mættum upp á bráðamóttökuna var ég látin liggja frammi á biðstofu í kuðung, sárkvalin og hágrátandi. Það þarf mikið til þess að ég kveinki mér, enda er sársaukaþröskuldurinn orðinn nokkuð hár eftir alla þessa verki í gegnum tíðina, en þarna var mér allri lokið.“
Lá sárkvalin á biðstofu bráðamóttökunnar
Eyrún lá á biðstofu bráðamóttökunnar í nokkra klukkutíma áður en loks var hugað að henni.
„Læknarnir voru á sömu skoðun og við til að byrja með, að um botnlangakast væri að ræða. Þeir náðu í sónartæki til þess að skoða hann frekar. Á þeim tímapunkti var ég orðin alveg viss um að svo væri ekki. Þegar þeir áttuðu sig á að þetta var ekki botnlanginn var mér engu að síður neitað um að ræða við kvensjúkdómalækni eða að fara yfir á kvennadeildina. Ég var síðan sprautuð niður með morfíni og sofnaði að lokum.“
Eyrúnu var haldið á bráðamóttöku yfir nótt. Snemma morguninn eftir birtist nýr læknir sem taldi hana í nægilega góðu standi til að fara heim.